Nútímminn tók viðtal við geitina er ekki alveg viss afhverju hann kallar sjálfan sig það en fínast grein.
UMSJÓN/ María Erla Kjartansdóttir* MYND/ Rakel Rún Garðarsdóttir
Brynjar Óli Ólafsson Lýsingarhönnuður hjá Hildiberg – skapandi hönnunarhúsi með áherslu á lýsingarhönnun.
Hvernig verkefni tekur þú að þér hjá Hildiberg og fyrir hverja? „Verkefnin eru afskaplega fjölbreytt og skemmtileg og af mismunandi stærðargráðu. Við hjá Hildiberg tökum að okkur lýsingarhönnun til dæmis fyrir fyrirtæki í veitinga- og hótelrekstri, götulýsingu og önnur lýsingarverkefni fyrir sveitarfélög og einstaklinga í stærri framkvæmdum svo fátt eitt sé nefnt.“
Hvað hefur verið áberandi í lýsingu síðustu misseri og hvað telur þú að komi sterkt inn árið 2023?„Undanfarin ár hefur notkun á kösturum og kastarabrautum aukist á heimilum. Einnig er orðið mjög vinsælt að nota svartan ljósabúnað frekar en hvítan eða gráan eins og áður var, það virðist vera orðinn „standard“ litur á ljósabúnaði. Það hefur átt við einstaklinga jafnt sem fyrirtæki. Ég held að kastarabrautir haldi áfram að vera vinsælar en að 24 og 48V brautakerfi komi sterkari inn, þar hefur þú möguleika á að blanda saman mismunandi ljósabúnaði. Vandinn hefur oft verið sá að finna pláss fyrir spenni en nú eru komnar brautir þar sem hægt er að koma spenninum fyrir í brautina sjálfa.“
Hvaða verkefni hafa staðið upp úr? „Við höfum fengið að taka þátt í mörgum spennandi verkefnum hjá Hildiberg. Það sem kemur fyrst upp í hugann er ný verslun 66° Norður á Hafnartorgi, nýir Garðheimar og Fjallaböðin í Þjórsárdal. Við höfum líka unnið mikið fyrir listasöfnin, þar stendur helst upp úr endurhönnun á lýsingu á Þjóðminjasafninu.“
Hvað ber að hafa í huga þegar verið er að velja ljósgjafa inn á heimili, vinnustaði eða í önnur rými?„Hvernig lýsingu þarftu í rýmið, tegund birtunnar, gæði ljósgjafans. Fyrst og fremst þarf að huga að því hvernig lýsingu rýmið krefst og velja ljósgjafan út frá því. Svo þarf að meta hvernig birtu þú vilt í rýmið, við viljum mismunandi ljóslit fyrir fyrirtæki og heimili. Fyrir heimili ætti 2700 Kelvin að vera allsráðandi og 3000 Kelvin á flestum vinnustöðum. Svo þarf að huga að gæðum ljósgjafans, við viljum ekki að hann hafi stuttan líftíma, flökti eða að það sé óþægindaglýja af honum.“
Skiptir máli að taka mið af umhverfinu þegar lýsingin er hönnuð? „Lýsingin þarf alltaf að spila með umhverfinu. Þegar útilýsing er annars vegar þá er gífurlega mikilvægt að lýsingin spilli ekki umhverfinu með ljósmengun. Oft kallar umhverfið á lágstemmdari lýsingu og þá er minna oft betra.“
Skiptir samspil notagildis og fagurfræði máli að þínu mati? „Oft er ljósabúnaður valinn út frá útliti en ekki eiginleikum. Þó að útlitið skipti að sjálfsögðu miklu máli þá þarf líka að huga að því hvernig lýsingar rýmið krefst. Hvort það sé þörf á dreifðri almennri lýsingu eða skarpri stefnuvirkri lýsingu.“
Hvernig er hægt að auka sjálfbærni þegar kemur að lýsingu? „Tilkoma LED ljósgjafa hefur aukið sjálfbærni á ljósabúnaði gríðarlega, bæði þegar kemur að orkusparnaði og líftíma. Til þess að tryggja meiri sjálfbærni skiptir val á ljósabúnaði öllu máli en ljósabúnaður er ekki allur jafnvígur þegar kemur að líftíma og orkusparnaði. Vel hugsuð snjallkerfi geta séð til þess að lýsingarkerfið verður sjálfbærara. Kerfið getur m.a. aðlagað ljósstyrk að dagsbirtu í rýminu til þess að tryggja orkusparnað og óþarfa notkun. Þá einfaldar kerfið líka notendanum að stjórna öllum ljósum samtímis til þess að tryggja að ljós séu ekki kveikt að óþörfu. Sem dæmi væri hægt að slökkva á öllum ljósum með einum takka áður en gengið er út úr húsinu. En það er ekki nóg að huga einungis að þessum þáttum ef það á svo að skipta öllum ljósum út eftir tíu ára notkun. Hönnunin þarf einnig að standast tímans tönn ef ljósabúnaðurinn á að vera sjálfbær.“
Hvernig breytist þörfin á milli árstíða þegar lýsing er annarsvegar? „Það gefur augaleið að þörfin á lýsingu verður meiri í skammdeginu. En þá er einnig mikilvægt að við getum stillt eða „dimmað” lýsinguna til þess að gera umhverfið notalegt. Dagsbirta er líffræðileg nauðsyn fyrir okkur, því miður höfum við takmarkaðan aðgang að henni yfir dimmustu mánuði ársins en þá er þeim mun mikilvægara að nýta hana til fullnustu á meðan við höfum hana.“
Eru einhver algeng mistök sem ber að varast á heimilum varðandi lýsingu? „Að spara í ljósabúnað geta verið stór mistök, við getum endað uppi með ljósabúnað með lélegum ljósgjafa sem flöktir, hefur mismunandi ljóslit og endist skemur. Algeng mistök eru líka að kaupa ljós á heimili sem eru 3000 Kelvin og jafnvel kaldari.“
Getur þú gefið lesendum góð almenn lýsingarráð? „Oft er gott að huga að því að lýsa á þá fleti sem augað nemur eins og veggi og loft fremur en að ljósið lýsi allt beint niður. Ef allri lýsingu er beint niður á gólf þá virkar rýmið dimmt og þungt. Við viljum heldur ekki jafnlýsa allt rýmið. Góður lýsingarhönnuður þarf að reiða sig á samspil ljóss og skugga.“